Frjálsíþróttaskóli UMFÍ á Laugum

0
53

10. júní mættu 11 hressir krakkar í frjálsíþróttaskóla UMFÍ á Laugum.  Frjálsíþróttaráð sá um framkvæmd skólans en Brói  var með yfirumsjón yfir æfingunum.  Við fengum Hafdísi Sigurðardóttur til að koma og sjá um tvær æfingar.  Við vorum einstaklega heppin með veður þessa daga.

Hafdís Inga, Hafdís, Guðni Páll, Emil,Benóný, Halldór Tumi og Olivia neðriröð;Sara Ragnheiður, Katla María, Ari, Hilmar Örn og Andri Snær. Mynd: Hulda Skarphéðinsdóttir
Hafdís Inga, Hafdís, Guðni Páll, Emil,Benóný, Halldór Tumi og Olivia
neðriröð;Sara Ragnheiður, Katla María, Ari, Hilmar Örn og Andri Snær. Mynd: Hulda Skarphéðinsdóttir

Byrjað var að koma sér fyrir í vallarhúsinu við íþróttavöllinn en þar gistum við og einnig var mötuneytið þar.   Hafdís Sigurðardóttir sá um fyrstu æfingu í skólanum og  spjallaði við krakkana eftir æfingu þar kom m.a. fram að hún tekur alltaf lýsi á hverjum degi og segir það mjög mikilvægt sérstaklega yfir vetrartímann.  Einnig taldi hún mikilvægt að koma vel hvíldur á æfingar, ekki svangur, vel klæddur  og hlusta á þjálfarann og fara eftir því sem þjálfarinn segir.  Hún hvatti krakkana til að vera dugleg að æfa og nota þennan frábæra völl okkar.  Jóhanna formaður HSÞ og Hermann Aðalsteinsson stjórnarmaður HSÞ komu í óvænta heimsókn á fyrsta degi og færðu okkur bláa HSÞ boli að gjöf og að sjálfsögðu þáði Hafdís HSÞ bol.

Á hverjum degi voru 2 frjálsíþróttaæfingar þar sem farið var yfir flestar greinar frjálsra íþrótta.  Á milli æfinga var oftast farið í sund.  Hópurinn náði mjög vel saman og voru nokkrar stuttmyndir gerðar, auk þess  sáu krakkarnir sjálf um skemmtiatriði á kvöldvökum.   Við fórum í  Dalakofann í pizzuhlaðborð og  einnig var farið í bíó í gömlu sundlauginni í  framhaldsskólanum.  Bjargey og Arna Dröfn  voru duglegar að koma og hjálpa til við þjálfun og afþreyingu, gerðu þær t.d  heilmikinn ratleik einn daginn fyrir krakkana.

Bjargey, Hafdís, Brói og Arna Dröfn sáu um þjálfun og afþreyingu. Mynd: Hulda Skarphéðinsdóttir
Bjargey, Hafdís, Brói og Arna Dröfn sáu um þjálfun og afþreyingu. Mynd: Hulda Skarphéðinsdóttir

Krakkarnir voru svo útskrifuð með viðurkenningaskjali og smá gjöf í lok skólans.    Í lokin fengum við spurningu hvort væri ekki hægt að halda svona skóla oftar jafnvel 1x í mánuði því  1x á ári væri alltof sjaldan. Það segir kannski ýmislegt um það hve krakkarnir náðu vel saman og hve vel þetta heppnaðist.

Stelpurnar í frjálsíþróttaskólanum  buðu svo þeim  sem vildu  í slökun eftir útskrift með gúrku á augnlok og öllu tilheyrandi.

Frjálsíþróttaæfingar fyrir  9 ára og yngri verða á Laugum á fimmtudögum frá kl.  18:00 til 19:00 og hefjast þær fimmtudaginn 19.  júní.  Þjálfari verður Bjargey Ingólfsdóttir.  HES.