Mjög spennt að taka þátt í Landsmóti UMFÍ 50+

0
33

„Ég er ákveðin í að taka þátt í þremur greinum á Landsmóti UMFÍ 50+. Ég komst að því að ég gæti komið þessum greinum fyrir en fjallahlaupið er fyrir hádegið á laugardag, stígvélakastið eftir hádegi sama dag og þríþrautin fyrir hádegi á sunnudag. Ég hef tekið þátt í Botnvatnshlaupinu á Húsavík og svo hef ég verið mikill aðdáandi þríþrautarinnar og tekið þátt í nokkrum mótum. Þetta kemur fram vef UMFÍ.

Arnfríður Aðalsteinsdóttir. Mynd: af vef UMFÍ
Arnfríður Aðalsteinsdóttir. Mynd: af vef UMFÍ

Ég tek núna þátt í Landsmóti UMFÍ 50+ í fyrsta sinn, hafði ekki aldur til fyrr, en ég varð fimmtug á síðasta ári,“ sagði Arnfríður Aðalsteinsdóttir. Hún vinnur sem sérfræðingur á Jafnréttisstofu á Akureyri en er fædd og uppalin á Húsavík.

Arnfríður sagðist hreyfa sig mikið og hefði raunar alltaf gert það. Hún er töluvert á gönguskíðum, syndir og hleypur og er mikið fyrir heilbrigðan lífsstíl.

„Ég er búin að synda í 30 ár og var í handbolta þegar ég var krakki. Ég hef synt nánast einn km daglega frá 1984 og við getum sagt að ég haldi mínu striki. Ég tek fyrst og fremst þátt í Landsmótinu til að hafa gaman af. Ég er ekki að fara til að ná fyrsta sætinu nema þá fyrir sjálfa mig. Ég hvet fólk í kringum mig til að koma og taka þátt og hafa fyrst og síðast gaman af þátttökunni og að hitta annað fólk. Mér fannst aldrei spurning um að vera með, fyrst mótið er haldið í mínum heimabæ. Mér finnst að þegar fólk er komið á miðjan aldur skipti hreyfingin öllu máli hvað heilsuna varðar. Það er mikil vakning í þjóðfélaginu fyrir hreyfingu og það er orðið svo margt í boði. Samt sem áður eru sumir sem hreyfa sig ekki neitt.

Mér finnst ég vera á besta aldri og alltaf gefast tækifæri til að gera eitthvað skemmtilegt, eins og að taka þátt í Landsmóti UMFÍ 50+ á Húsavík. Mér hefur aldrei fundist merkilegt að synda á hverjum degi í 30 ár en allt í einu gerir maður sér grein fyrir því hvað maður býr að góðri heilsu, fimmtug að aldri. Ég er spennt fyrir Landsmótinu og hvet alla til að taka þátt í því, þó að ekki sé til annars en að keppa við sjálfan sig. Þetta gæti líka verið upphafið að einhverju meira og skemmtilegu,“ sagði Arnfríður Aðalsteinsdóttir.  UMFÍ.is