Enn hætta við Öskju

0
30

Í dag hafa vísindamenn farið yfir frumniðurstöður rannsókna síðustu daga í kjölfar berghlaupsins í Öskju s.l. mánudag. Þær hafa verið nýttar í eftirfarandi niðurstöður og ábendingar. Ekki sáust nein ummerki sem benda til þess að yfirvofandi sé sambærilegt hrun úr brúnum Dyngjufjalla við Öskjuvatn sem orsakað gæti álíka flóðbylgju og myndaðist mánudaginn 21. júlí. Þó þykir ástæða til þess að hafa varann á og takmarka umferð innan öskjunnar líkt og hefur verið undanfarna daga fram í næstu viku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum.

 

Þarna féll stór skriða úr fjallinu ofan í Öskjuvatn. Mynd: Jara Fatima Brynjólfsdóttir
Þarna féll stór skriða úr fjallinu ofan í Öskjuvatn. Mynd: Jara Fatima Brynjólfsdóttir


Í næsta nágrenni þar sem berghalupið varð er mikil hætta á frekari skriðuföllum og má ætla að sú hætta vari í a.m.k. ár eða lengur. Ástæða er til þess að vara við öllum mannaferðum á því svæði. Að viku liðinni er gert ráð fyrir að skriðuhætta í Öskju, utan framhlaupsins sjálfs frá 21. júlí, verði svipuð og áður var. Rétt er að taka fram að jafnan er veruleg hætta á skriðuföllum úr brúnum Dyngjufjalla við Öskjuvatn. 
 

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, lögreglustjórinn á Húsavík og Vatnajökulsþjóðgarður hvetja þá sem verða á ferð við Öskju að virða þær lokanir og merkingar sem þar eru.