Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppur ætla að vinna saman að sorpmálum

0
27

Á hluthafafundi Sorpsamlags Þingeyinga sem haldinn var 25. júlí s.l. var samþykkt að slíta samstarfi sveitarfélaga um hirðingu og förgun sorps í Sorpsamlagi Þingeyinga frá og með næstu áramótum. Á síðasta kjörtímabili var skipaður starfshópur til að vinna að framtíðarskipulagi sorpmála í Þingeyjarsveit, en starfshópinn skipa Arnór Benónýsson oddviti, Margrét Bjarnadóttir, Ásvaldur Ævar Þormóðsson auk sveitarstjóra. Á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar sem haldinn var 7. ágúst sl. var samþykkt að endurskipa þá fulltrúa A-lista sem fyrir voru í hópnum og var Ara Teitssyni fulltrúa T-listans bætt í starfshópinn.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Ruslapoki. Mynd: Heiða Kjartans

 

Að sögn Arnórs Benónýssonar oddvita verður verkefni starfshópsins að finna framtíðarlausn í sorpmálum sveitarfélagsins í samvinnu og sátt við íbúana.

Starfshópurinn hefur þegar haldið einn fund og ákveðið var á fundinum að vinna saman að lausn á sorpmálum í Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi, en þar er einnig búið að skipa starfshóp um sorpmál.

Allt stefnir því í samvinnu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar til framtíðar, um söfnun og förgun á sorpi í sveitarfélögunum tveimur.