Allt við það sama í Holuhrauni og Bárðarbungu

0
25

Á fundi Vísindamannaráðs í morgun sem á sátu vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans, ásamt fulltrúum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Umhverfisstofnun og Sóttvarnalækni, kom eftirfarandi fram: Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram með svipuðum hætti og verið hefur undanfarið. Jarðskjálftavirkni í Bárðarbungunni heldur áfram að vera mikil. Frá hádegi á föstudag, 31. október hafa mælst 207 skjálftar við Bárðarbungu. Tveir skjálftar voru stærri en M5,0, þann 31. október kl. 21:32 varð skjálfti uppá M5,2 og 2. nóvember kl. 16:02 varð skjálfti uppá M5,3. Alls voru 27 skjálfta á milli M4 og 5 og átta á milli M3 og 4. Frá þessu segir á facebook-síðu jarðvísindastofnunar.

056conv
Eldgosið í Holuhrauni

GPS stöðin í öskju Bárðarbungu sýnir að sigið heldur áfram með svipuðum hraða og verið hefur undanfarnar vikur.
Afl jarðhitasvæðanna í Bárðarbungu er nú nokkur hundruð megavött og bráðnun metin um 2 rúmmetrar á sekúndu.

 

 
Aðeins 17 skjálftar hafa mælast við bergganginn og gosstöðvarnar í Holuhrauni frá því á föstudag, þar af tíu frá miðnætti í dag.
Hreyfingar á GPS mælum á umbrotasvæðinu sýna litlar breytingar.

Loftgæði:

Í dag (mánudag) berst gasmengun frá eldgosinu til suðvesturs. Gæti orðið vart við hana á svæði sem afmarkast af Skeiðarárjökli í austri og Selfossi í vestri. Í kvöld gæti mengunin náð vestar, yfir Höfuðborgarsvæðið og Reykjanes. Í kvöld lægir vind á landinu og á morgun (þriðjudag) er búist við froststillu á gosstöðvunum. Við slíkar aðstæður eru auknar líkur á háum styrk mengunar. Þegar kemur fram á daginn má búast við sunnan og suðvestan andvara og eru því mestar líkur á mengun á svæðunum norðan og austan við eldstöðina, en gosmóða gerir þó væntanlega vart við sig víðar um land á þriðjudeginum.
Tvennskonar tveggja daga spár eru gerðar vegna mengunar frá eldgosinu. Annars vegar er um að ræða textaspá með kortum sem gerð eru af veðurfræðingi á vakt, sjá Gas spá. Hins vegar er hægt að skoða sjálfvirkt Gas líkan, en þetta er tilraunakeyrsla sem er í þróun og taka ber með fyrirvara. Veðurstofan biður fólk að Skrá mengun, verði það hennar vart.
Hægt er að fylgjast með mælingum á loftgæðum á síðunni www.loftgæði.isÞar eru einnig aðgengileg gögn frá handmælum sem eru víða um land.

Leiðbeiningar:

Ef fólk finnur fyrir óþægindum er mælt með að halda sig innandyra, loka gluggum, auka kyndingu og slökkva á loftræstingu. Gott er að lofta vel út þegar loftgæði eru góð. Fólk sem finnur fyrir óþægindum er hvatt til þess að hafa samband við sína heilsugæslustöð. Tafla um viðbrögð við loftmengun hefur verið birt á vef Umhverfisstofnunar www.ust.is. Hægt er að fylgjast með mælingum á loftgæðum á síðunni www.loftgæði.isVeðurstofan birtir textaspár á vef sínum og viðvaranir eftir því sem aðstæður breytast.
Tilmæli og leiðbeiningar frá Sóttvarnalækni og Umhverfisstofnun má finna á heimasíðum stofnananna. www.ust.is og www.landlaeknir.is
Veðurstofan birtir spár um útbreiðslu brennisteinstvíildis á vefnumwww.vedur.is en þær eru einnig lesnar með veðurfregnum. Leitast er við að koma spánum til skila í sjónvarpsveðurfréttum.
Umhverfisstofnun er að skipuleggja dreifingu handmæla víða um land til að bæta upplýsingaöflun um dreifingu mengunarinnar.
Hægt er að senda inn fyrirspurnir og upplýsingar til Umhverfisstofnunar vegna loftmengunar á netfangið gos@ust.is. Umhverfisstofnun óskar sérstaklega eftir upplýsingum frá fólki sem hefur orðið vart við mikla mengun; hvar það var statt, tímasetningu, lýsingu á gasmekki, eins og lit og skyggni, og lýsingu á áhrifum (sviði í augum o.s.frv.).

Þrír möguleikar eru áfram taldir líklegastir um framvindu:

Gosið í Holuhrauni fjarar út og öskjusig í Bárðarbungu hættir.
Stórt öskjusig í Bárðarbungu. Gos í Holuhrauni verður langvinnt eða vex. Mögulegt er að sprungan lengist til suðurs inn undir Dyngjujökul og valdi jökulhlaupum og gjóskufalli. Einnig er mögulegt að sprungur opnist annars staðar undir jöklinum.
Stórt öskjusig í Bárðarbungu og gos í öskjubroti. Slíkt gos gæti brætt mikinn ís og valdið verulegu jökulhlaupi. Öskufall gæti orðið nokkurt.

Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir.

Frá Veðurstofu Íslands: Litakóði fyrir flug er áfram appelsínugulur fyrir Bárðarbungu.
Næsti fundur vísindamannaráðs verður miðvikudaginn 5. nóvember.