Skólastaðsetningarpæling

0
23

Í aðdraganda kosninga fyrr á þessu ári sendi ég frá mér nokkra pistla með hugleiðingum um málefni í sveitarfélaginu mínu, aðallega skólamál. Ég hlaut nú engar vinsældir fyrir og það var meira segja frekar á hinn veginn. Ég stefndi svo sem ekkert að þessu fyrra en ætlaði mér ekki heldur hið síðara. Með skrifunum mínum vildi ég bara vekja upp umræðu, leggja mín sjónarmið fram og helst að fá viðbrögð annarra og þá að heyra fleiri hliðar á málunum en þá sem ég kom með.

Aðalsteinn Már Þorsteinsson
Aðalsteinn Már Þorsteinsson

Enn eru skólamálin í umræðunni og ljóst að nú dregur senn til tíðinda. Ég hef á málinu sterkar skoðanir, því skal ég ekki neita, en ég tel mig geta sett fram góð rök máli mínu til stuðnings. Ég hef áhuga á því að heyra og sjá gild rök fyrir öðrum leiðum, öðrum skoðunum en mínum og tel að með því að hafa opna umræðu þar sem fram koma sem flest sjónarmið, áhyggjur fólks og væntingar séum við að hjálpa okkur öllum að öðlast betri skilning á því sem verið er að gera og jafnvel líka að auðvelda þeim sveitungum okkar sem við kusum til ábyrgðar í sveitarstjórn að taka farsælustu ákvarðanirnar.

Skýrslurnar þrjár sem nýverið komu út um Þingeyjarskóla gefa vissulega innsýnn inn í málið en þær, eins og svo margar aðrar skýrslur, vekja fleiri spurningar en þær svara. Þær einar og sér geta því tæpast verið nægur grundvöllur til ákvarðanartöku um framtíð Þingeyjarskóla. Það er mikilvægt að meiri umræða eigi sér stað.

Til að draga úr líkum á misskilningi vil ég, áður en ég kem mér að málinu (sem er ákvörðunartaka sveitarstjórnarinnar um það hvort öll starfsemi Þingeyjarskóla skuli færast yfir í Hafralækjarskóla eða Litlulaugaskóla), setja fram nokkra punkta:

  • Ég er þeirrar skoðunar að staðsetning skólahúss hafi lítil áhrif á það sem mestu skiptir – nefnilega gæði skólastarfsins. Uppskrift að góðum skóla er: hæft starfsfólk og velviljaðir og virkir foreldrar.
  • Ég er þeirrar skoðunar að staðsetning skólahúss hafi mikil áhrif á byggðaþróun og gegni algjöru lykilhlutverki í þeim málum.
  • Ég er mjög ósáttur við vinnubrögð í Þingeyjarsveit þegar kemur að skólamálum. Það á að skoða heildarmyndina í öllu sveitarfélaginu, horfa fram á veginn, hugsa stórt, og taka djarfar ákvarðanir.

Ég tel fullvíst að ákvörðun um framtíð Þingeyjarskóla hafi þegar verið tekin af núverandi sveitarstjórnarmeirihluta fyrir síðustu kosningar og að allt það ferli sem nú sé í gangi sé lítið annað en leikþáttur. Þingeyjarskóli mun næsta haust flytjast allur í Hafralækjaskóla. Komi fram miklar og háværar óánægjuraddir mun reynt að friða þær með því að fullyrða að hér sé um bráðarbirgðarlausn að ræða þar sem engin önnur sé í stöðunni.

Það að hætta skólahaldi í Litlulaugaskóla tel ég vera óskynsamlega leið á svo margan hátt. Í ljósi vísbendinga um mikinn kostnað vegna viðhalds á Hafralækjarskóla á næstu árum tel ég það líka í raun dýrari lausnina fyrir sveitarfélagið af þeim tveimur sem núverandi sveitarstjórnarmeirihluti segist vera tilbúinn til þess að taka. Það er því skoðun mín að ef valið í skólamálum í Þingeyjarsveit á að þessu sinni eingöngu að standa á milli þess að loka annað hvort Hafralækjaskóla eða Litlulaugaskóla (og mér finnst of margar lausnir útilokaðar með því að bjóða bara upp á þessar tvær lausnir) þá er þó skárra að loka Hafralækjarskóla. (Rétt er að taka fram að sú skoðun mín hefur ekkert að gera með starfsfólkið eða það starf sem þar er unnið. Væntanlega verður stokkað upp í starfsliðinu óháð því á hvorn staðinn verður farið og góðir þættir og hæft starfsfólk úr báðum starfstöðvunum mun halda sér.) Sú skoðun mín að vilja þá, fyrst eingöngu þessir tveir kostir eru í boði, loka Hafralækjarskóla byggja eingöngu á staðsetningu skólans og óviðunandi ástandi hússins. Í þessu máli ætla ég einnig að leyfa mér að fullyrða:

  • Það veikir sveitarfélagið Þingeyjarsveit allt að veikja byggðakjarnan sem er veikur fyrir en hefur verið í hægum vexti.
  • Það veikir Framhaldsskólann á Laugum að flytja grunnskólann frá Laugum. Ríkið vill fækka framhaldsskólum í landinu og ef sveitarfélagið sýnir ekki skýr merki þess að FL skipti máli fyrir sveitarfélagið mun ríkið líklega grípa það tækifæri sem í því felst og velja að skera niður FL.
  • Þingeyjarsveit er eitt þeirra sveitarfélaga sem er með hvað lægstu útsvarstekjur miðað við fjölda íbúa á skattgreiðendaaldri. Þingeyjarsveit skuldar mikið og þarf miklar tekjur. Þingeyjarsveit má ekki við því að missa stóran vinnustað eins og FL út úr skatttekjuliðnum hjá sér og þarf að stíga varlega til jarðar í öllum ákvörðunum sem valdið geta byggðaröskun.
  • Atvinnuuppbygging er brýnasta verkefnið í Þingeyjarsveitar og ég tel mun meiri líkur á því að hægt verði að selja Hafralækjarskóla undir fyrirtækjarekstur, sem gæti skapað mörg störf, en Litlulaugaskóla þar sem sá fyrri er mun stærri og hentar vel að breyta sökum þess hversu fáir innveggir eru steyptir. Fleiri störf þýðir íbúafjölgun og meiri útsvarstekjur.
  • Þó svo að selja verði Hafralækjarskóla á lægra fermetraverði en Litlulaugaskóla, sökum lélegs ástands, þá eru mun meiri líkur á því að sú bygging skapi sveitarfélaginu meiri tekjur í framtíðinni í formi fasteigna- og hitaveitugjalda.

Margt af því sem miklu máli skiptir í farsælli ákvarðanatöku þegar kemur að stórum og flóknum hlutum verður ekki svo auðveldlega umreiknað í tölur. Kostnaður skiptir samt líka máli og ég hef sett saman nokkrar tölur fyrir mig í von um að það hjálpi mér að skilja dæmið. Ég læt Excelskjalið mitt fylgja með fyrir þá sem hafa á því áhuga og vilja kynna sér. Ábendingar um betri útreikninga eða liði sem vantar inn í breytuna hjá mér eru vel þegnar.

Aðalsteinn Már Þorsteinsson, Hjalla

utreikn allimar