Skilningsleysi

0
26

Ég er í besta falli einfaldur meðalmaður og hef fyrir löngu sætt mig við það að skilja fátt og eiga lítið af svörum við stórum og flóknum hlutum í veröldinni. Löngunin til að skilja kemur þó alltaf af og til, sérstaklega þegar um hluti er að ræða sem maður hefði haldið að ætti að vera auðvelt að fá botn í.

Aðalsteinn Már Þorsteinsson
Aðalsteinn Már Þorsteinsson

 

Útspil í skólamálum í sveitarfélaginu vakti svo margar spurningar hjá mér að ég finn mig tilneyddan til þess að setjast niður og setja á blað (skjá) eitthvað af því sem heilinn minn berst við að reyna að skilja. Svo deili ég því með sveitungum mínum – kannski aðrir geti hjálpað mér að öðlast betri skilning.

 

 

 • Ég skil ekki hvernig meirihluti sveitarstjórnar gat komist að þessari niðurstöðu. Kannski skil ég það betur þegar greinargerð kemur frá þeim.
 • Ég skil ekki hvers vegna tillagan var lögð fram í sveitarstjórn án þess að henni fylgdu nein gögn. Hef velt fyrir mér tveimur möguleikum. Annar er sá að greinargerðin sé einfaldlega ekki tilbúin en það myndi þá þýða að menn væru komnir með niðurstöðu en ekki rökin fyrir henni. Hinn möguleikinn er sá að með þessu vilji meirihlutinn einfaldlega sýna og minna á með táknrænum hætti að hann er með fullt umboð frá kjósendum til þess að gera hvað sem er, þau ráða og skulda okkur hinum engar skýringar á sínum gjörðum. Báðir þessir möguleikar eru náttúrulega svo fáranlegir að mér, einfeldningnum, hlýtur að yfirsjást einhver augljós eðlileg skýring.
 • Ég skil ekki hvernig meirihluti sveitarstjórnar fór að því að komast svo afdráttarlaust og samhljóma að niðurstöðu í þessu skólamáli að enginn fulltrúanna sá ástæðu til þess að tjá sig neitt um tillöguna af fyrra bragði á sveitarstjórnarfundinum til þess að gera grein fyrir sannfæringu sinni. Að sama skapi virðist sem enginn 7 menningana sjái ástæður til þess að greina frá neinum efasemdum um að hér sé á ferðinni besta niðurstaðan í skólamálum (ég geri ráð fyrir að allir hafi tekið fullan þátt í mótun tillögunar þó svo að 2 aðilar hafi síðan vikið af sjálfum fundinum). 7 manns algjörlega sammála sem 1 maður í máli sem sumir segja að hafi valdið deilum í sveitarfélaginu í áratug. Kraftaverk?
 • Ég skil ekki hvers vegna meirihluti sveitarstjórnar, sem í eru miklir reynsluboltar í skólastarfi, gerði engar ráðstafanir til þess að mæta því ástandi sem ljóst mátt vera að skapaðist meðal nemenda við það að þeir fengu fréttir af þessari tillögu án þess að nokkur gæti svarað þeim öllum spurningunum sem vöknuðu, að ekki sé minnst á þær tilfinningar sem ákvörðun sem þessi olli.
 • Ég skil ekki hvers vegna sameina þarf Þingeyjarskóla á eina starfstöð í hagræðingarskini á meðan á sama tíma hefur ekki farið fram nein úttekt á rekstri Stórutjarnarskóla.
 • Ég skil ekki hvers vegna sameina þarf Þingeyjarskóla á eina starfstöð til að mæta félagslegri fæð á meðan á hvorri starfstöð hans eru því sem næst jafn margir nemendur eins og í Stórutjarnarskóla, sem enginn ástæða er til þess að skoða eða gera neitt við.
 • Ég skil ekki hvers vegna, fyrst peningur er til til þess að reka Stjórutjarnarskóla í óbreyttri mynd, má þá ekki bara reka 3 slíka skóla. Því hefur verið svarað að það þurfi ekki að gera úttekt á rekstri Stórutjarnarskóla þar sem hann sé á pari við Hafralækjarskóla.
 • Ég skil ekki hvers vegna forsvarsmenn Framhaldsskólans þegja þunnu hljóði og gera engar athugasemdir við þær fullyrðingar meirihluta sveitarstjórnar að flutningur grunnskóla úr næsta nágrenni muni ekki hafa nein neikvæð áhrif á Framhaldsskólann. Nú, ef það er hins vegar rétt hjá meirihlutanum væri líka þá bara fínt að það væri staðfest.
 • Ég skil ekki hvers vegna svo margir íbúar Þingeyjarsveitar utan Reykjadals virðast líta á byggðakjarnan á Laugum sem einhvers konar ógn eða jafnvel óvin sem nauðsynlegt sé að halda niðri.

Þó svo að ég hefði viljað fara aðra leið í þróun skólamála í Þingeyjarsveit en þessa sem í boði er þá hef ég reynt að skoða af sanngirni hvað sé best í þessum takmörkuðu möguleikum sem núverandi meirihluti sveitarstjórnar tilkynnti fyrir kosningar að boðið yrði upp á. Auðvitað vill enginn missa sinn skóla og það litar minn hugsunarhátt eins og hjá öllum öðrum. Ég hef samt ekki séð neinn færa nein rök fyrir því að halda úti grunnskóla á Hafralæk önnur en þau að húsið stendur þar og margir hafa látið eins og þetta sé þeim ekkert tiltökumál – tilfinningaóreiðan sé öll Reykjadalsmegin. Fáan eða engan hef ég samt séð af þessum aðilum velta fyrir sér og skoða af alvöru hvað sé best að gera í stöðunni. „Skólinn stendur þarna og hann er nógu stór, hinn skólinn er það ekki. Við getum ekki verið að byggja ef það þarf ekki svo við höfum þá bara skólann þarna. Annars er mér alveg sama.“ Ekkert af þessu fólki hef ég heyrt skipta um skoðun eftir skýrslu sem sýnir svart á hvítu að málið er ekki alveg svona einfalt reikningsdæmi. Það er ekki nóg að horfa á húsin að utan.

 • Ég skil ekki að það skuli ekki fleiri sjá tækifæri í því að selja Hafralækjarskóla. Það er uppgangur í samfélaginu og byggingarmáti og ástand hússins hentar mjög vel til þess að breyta því í nánast hvað sem er. Ferðaþjónustan er t.d. í blóma – Hafralækjarskóli: hótel – spa – demantshringurinn – norðurljós – frábær ráðstefnuaðstaða (aukin útleika á Ýdölum). Þetta myndi skapa atvinnu og það eru einmitt fleiri störf sem við þurfum til að fleira fólk flytji aftur heim í sveitirnar. Þetta gæti verið tækifæri til vaxtar og uppbyggingar. Ég sé þetta ekki gerast eða einhvera stórtæka atvinnuuppbyggingu eiga sér stað þó svo að skólahúsnæði Litlulaugaskóla verði selt.

Haustið 2004 voru nemendur HLS 82, LLS 46 og STS 58. Haustið 2014 voru nemendur HLS 38, LLS 40 og STS 43. Fækkun á 10 árum var því: HLS 44 nemendur, LLS 6 og STS 15. 1. janúar 2005 voru íbúar Þingeyjarsveitar (að Aðaldælahreppi meðtöldum) 962 og bjuggu 105 af þeim á Laugum. Miðað við tölur frá 3 ársfjórðungi þessa árs má gera ráð fyrir að íbúar Þingeyjasveitar verði 1. janúar 2015 um 930 og af þeim búi um 130 á Laugum. Á meðan íbúum í sveitarfélaginu fer fækkandi fer þeim sem búa í byggðakjarnanum á Laugum fjölgandi. Ákjósanlegast væri að íbúum færi fjölgandi í sveitarfélaginu almennt en ekki bara á Laugum en þeim er þó að fjölga þar og það mun með tímanum hafa jákvæð áhrif til fjölgunar annars staðar í sveitarfélaginu.

 • Ég skil ekki að menn skuli geta komist að þeirri niðurstöðu að farsælast sé fyrir sveitarfélagið að loka þeim skóla sem hefur haft nánast sama nemendafjölda um margra ára skeið á sama tíma og stöðugt hefur fækkað í hinum.
 • Ég skil ekki að menn skuli geta komist að þeirri niðurstöðu að besti kosturinn sé að veikja byggðakjarna sveitarfélagsins með því að færa grunnskólahald úr honum (en síður skil ég það að sumir skuli blygðunarlaust halda því fram að það veiki ekki byggðakjarnan að gera það).

Ég hef ekkert á móti skólahaldi í Aðaldal og hefði sjálfur aldrei valið þá hugmyndafræði sem núverandi meirihluti sveitarstjórnar vinnur út frá að loka einhverjum skóla í einum hvelli. Á sama tíma er ég algjörlega sannfærður um það að flutningur grunnskóla frá Laugum mun valda sveitarfélaginu miklu tjóni. Ég á því erfitt með að sitja einfaldlega hjá þegar verið er að framkvæma svona stór mistök í rekstri, uppbyggingu og þróun sveitarfélagsins míns til framtíðar. Ég hef trú á Þingeyjarsveit og tel það hafa alla burði til þess að geta átt góða framtíð. Hér er mikill mannauður og mörg tækifæri. Á sama tíma er Þingeyjarsveit viðkvæm og veikburða í hinu stóra samhengi. Það er því nauðsynlegt að taka allar ákvarðanir  með heildarhagsmuni sveitarfélagsins að leiðarljósi og með það að markmiði að styrkja það og efla. Ef gera þarf breytingar og vilji menn að þær séu farsælar er grundvallaratriði að gera þær í góðri sátt við íbúa sveitarfélagsins.

Aðalsteinn Már Þorsteinsson.