Brunavarnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar keyptu á dögunum öfluga vatnssugu sem ætluð er til nota ef vatn færi að leka í híbýlum fólks á svæðinu. Miklu máli skiptir að dæla vatni hratt burt út úr híbýlum fólks, komi leki að vatnslögnum, því gólfefni skemmast mjög fljótt liggi vatn lengi á þeim. Tvær litlar og afkastamiklar brunndælur voru einnig keyptar í sama tilgangi.


Að sögn Bjarna Höskuldssonar slökkviliðsstjóra hjá Brunavörnum Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar vantaði þennan búnað hjá slökkviliðinu en hann var einungis til hjá slökkviliðinu á Húsavík.
Í vetur keyptu brunavarnirnar pallbíl sem búið er að útbúa til slökkvistarfs, sem hentar þar sem langt er að sækja vatn. Á pallinum er búið að koma fyrir brunaslöngum sem eru tengdar saman, samtals um 800 metra langar. Aftan í bílnum er kerra með bensínknúinni vatnsdælu. Mjög víða í Þingeyjarsýslu eru aðstæður með þeim hætti að nokkuð langt er að sækja vatn, en með þessum búnaði tekur það stutta stund að tengja dæluna og síðan er bílnum ekið í áttina að brunastað og slöngurnar lagðar um leið út af pallinum. Að sögn Bjarna ætti þessi búnaður að henta líka mjög vel við að slökkva í sinu, þar sem erfitt getur verið að koma slökkvibílnum að.



Brunavarnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar eru því ágætlega búnir tækjum og tólum til slökkvistarfs á Þingeyjarsýslu.