Árshátíð Litlulaugaskóla var haldin á Breiðumýri í gærkvöld fyrir fullu húsi. Nemendur Litlulaugaskóla og leikskólans Krílabæjar sýndu leikritið Glanni glæpur í Latabæ í leikstjórn Arnórs Benónýssonar og í tónlistarstjórn Péturs Ingólfssonar. Sýningin var gríðarlega vel heppnuð, bæði nemendum, leikstjóra og tónlistarstjóra til sóma.

Eldri nemendur voru í öllum helstu burðarhlutverkum, en sérstaka athygli vakti að yngri nemendur léku að hluta til sömu persónur og þeir eldri og voru t.d. tveir íþróttaálfar og fjórar Sollur á sviðinu í einu.

Misjafnt var hve margir léku sama hlutverk, en mörg af stærstu hlutverkunum voru leikin af fjórum nemendur , þannig að einn kom úr leikskólanum og svo þrír af öllum stigum grunnskólans.

Mikið var lagt upp úr búningunum og voru þeir allir hinir glæsilegustu.



Að leiksýningu lokinni fengu gestir sér kaffi og kökur og síðan var stigin dans fram undir miðnætti.
Aukasýning er fyrirhuguð á Glanna glæp í Latabæ 6. apríl nk.
Ef smellt er á hverja mynd fyrir sig er hægt að skoða stærri upplausn.