Náum árangri með agaðri hagstjórn og minni verðbólgu

0
27

Höskuldur Þórhallsson, skrifar.

Veik staða ríkissjóðs og agaleysið við stjórn hans hefur bitnað harkalega á heimilum landsins. Það sýnir sig hvað helst í því að meira að segja varfærnustu spár gerðu ráð fyrir um 4.4% hagvexti á árinu 2012 en hann reyndist aðeins rétt um 2%. Einnig er verðbólgan langt frá væntingum en hún mældist um 4.4% í lok síðasta árs þegar gert var ráð fyrir að hún yrði aðeins um 1.6% á árinu. Þetta er dapur árangur hvernig sem á það er litið. Það hefði verið hægt að gera svo miklu betur.

Höskuldur Þór Þórhallsson.
Höskuldur Þór Þórhallsson.

Þegar metinn er árangur ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili verður að líta til þeirra markmiða sem hún sjálf setti sér ásamt Alþjóða gjaldeyrissjóðnum við upphaf kjörtímabilsins og koma fram í skýrslu fjármálaráðuneytisins um jöfnuð í ríkisbúskapnum fyrir árin 2009 til 2013. Miðað við upphafleg markmið hefði frumjöfnuður fyrir árið 2013 átt að nema 147,5 milljörðum króna í stað þeirra 60 milljarða króna sem frumvarp til fjárlaga gerði ráð fyrir en það er aðeins um helmingur þess árangurs sem vænta mátti.

Einnig má benda á að skuldaukning ríkissjóðs á næsta ári mun gera það að verkum að markmið um lækkun skuldanna í 60% af landsframleiðslu mun ekki nást, en skuldsetning ríkissjóðs nemur nú tæplega 95% af framleiðslunni.

Í fjármálakreppunni sem gekk yfir Svíþjóð fyrir u.þ.b. 20 árum náðist viðsnúningur með miklum aga í fjárstjórn ríkissins. Skýrir rammar voru settir sem þingmenn hvika ekki frá. Rástöfunarfé ráðherra var afnumið og fjáraukalög urðu að þröngri undantekningu. Þá voru fengnir færustu sérfræðingar, bæði innlendir sem erlendir, við að meta forsendur og áhrif fjárlaga hvers árs. Nú hvarflar ekki að nokkrum sænskum þingmanni að lofa fjármunum í verkefni sem ekki finnast innan ramma laganna. Í raun var allt afnumið sem þykir því miður regla en ekki undantekning hér á landi.

Ljóst er að ríkisstjórninni hefur mistekist að standa við þau markmið sem hún sjálf setti sér þrátt fyrir þá staðreynd að þau voru lágstemmd. Vandi ríkissjóðs verður mikill á næstu árum og ljóst að auka verður aga og ábyrgð við fjárlagagerð ríkisins. Þá stendur næst að líta til Svíþjóðar sem búa við sjálfstæðan gjaldmiðil eins og við. Það er lykilatriði til að halda verðbólgunni í skefjum og skapa tekjur til að byggja upp atvinnulífið í landinu og öruggt heilbrigðiskerfi. Það er verðugt verkefni og til þess að árangur náist verða stjórnmálamenn að sýna pólitískan kjark. Þann sama sem þurfti til að vinna Icesave málið og þarf til að tekið verður á vanda skuldsettra heimila.

Höfundur er alþingismaður og skipar 2. sætið á lista Framsóknarflokksins fyrir Alþingiskosningarnar 2013.