Réttað var í Hraunsrétt í Aðaldal laugardaginn 31.ágúst og er það nokkuð óvanalegur tími. Líklega er það ekki oft sem réttað hefur verið í Hraunsrétt í ágúst og var Hraunsréttardagurinn einu sinni alltaf 14.september. Seinna var svo farið að rétta 1-2 helgi í september og hefur verið svo um árabil. Veðurspáin síðustu daga varð til þess að tekin var ákvörðun um að ganga fyrr, enda bændafólk ekki búið að gleyma árinu í fyrra.

Hraunsréttardagurinn er alltaf hátíðisdagur í Aðaldal og þá koma margir burtfluttir á sínar heimaslóðir til þess að hjálpa til og gleðjast með ættingjum og vinum og til þess að sjá féð sem komið er af fjalli.
Framkvæmdum í Hraunsrétt lauk í fyrra og hefur réttin öll verið gerð upp, en ekki í nákæmlega sömu mynd. Hún hefur verið minnkuð frá fyrri tíð enda var hún önnur stærsta skilarétt á Norðurlandi. Mun færri bændur eru með sauðfé sé miðað við síðustu öld og því er þörfin fyrir dilka ekki sú sama og áður var.
Vel lá á fólki í réttinni og Gangnamannakórinn söng við mjög góðar undirtektir réttargesta. Einn bóndi hafði á orði að erfitt hefði verið að smala því féð hefði ekki verið tilbúið að fara heim og fundið á sér að tíðarfar yrði hagstætt næstu viku. Texti: Atli Vigfússon.
Meðfylgjandi myndir tók Atli Vigfússon, sem hægt er að skoða í stærri útgáfu ef smellt er á þær.





