Fréttatilkynning frá Velferðasjóði Þingeyinga

0
31

Aðalfundur Velferðasjóðs Þingeyinga var haldinn í Bjarnahúsi á Húsavík 12.maí síðastliðinn. Stjórn sjóðsins er þannig skipuð: Formaður er Örnólfur J. Ólafsson sóknarprestur á Skútustöðum, Sara Hólm frá Kvenfélagasambandi Suður-Þingeyinga og Hulda Aðalbjarnardóttir fjármálastjóri Framsýnar.

velferðarsjóður Þingeyinga

Í úthlutunarnefnd sjóðsins eru: Dögg Káradóttir félagsmálastjóri Norðurþings, Guðlaug Gísladóttir fulltrúi Rauðakrossdeildar Húsvíkur og formaður úthlutunarnefndar er sr.Sighvatur Karlsson sóknarprestur á Húsavík. Þórhildur Sigurðardóttir og Aðalsteinn Á. Baldursson létu af störfum fyrir sjóðinn og eru þeim þökkuð góð störf.

 

 

Framlög til sjóðsins árið 2013 voru 3.281.907 kr. og veittir styrkir voru 2.005.238 kr.
Tekjur umfram gjöld voru 1.244.317 kr.
Auk þess bárust sjóðnum matargjafir á árinu frá nokkrum fyrirtækjum og félagasamtökum og þökkum við innilega fyrir það.

Umsóknir árið 2013 voru nokkuð svipaðar í fjölda eins og árið 2012, en þó nokkuð færri og er það jákvætt.

Ég vil biðja fyrirtæki og stofnanir hér í Þingeyjarsýslu að ljá þessu „barni“ okkar lið. Sjóðurinn hefur engar aðrar tekjur en þær sem velunnarar sjóðsins ljá honum. Allt starf við sjóðinn er unnið í sjálfboðavinnu og kauplaust.

Góður velunnari sjóðsins hefur gefið sjóðnum um milljón á ári síðustu á og hefur aldeilis munað um þá upphæð. Þessi velunnari sjóðsins er nú látinn og komið er að okkur að fylla það skarð sem óhjákvæmilega verður hvað varðar fjárhag sjóðsins í framtíðinni.

Það hefur stundum verið notað í sjónvarpssöfnunum undanfarin ár, að skora á fyrirtæki að gefa fé og vil ég í anda þess biðja fyrirtæki hér á svæðinu að skora á hvort annað að ljá sjóðnum lið með fjárgjöfum. Þetta þarf ekki að fara hátt. Menn geta hringt í hvern annan. Allt fé sem inn kemur rennur til samfélags okkar.

Þeir sem vilja leggja þessu góða máli lið, geta lagt inn á bankareikning sjóðsins í Sparisjóði S-Þing: 1110-05-402610 og kennitalan er 600410-0670.

Aðstandendur sjóðsins þakka af alhug öllum þeim sem hafa lagt sjóðnum lið á undanförnum árum.

Fyrir hönd Velferðasjóðs Þingeyinga

sr.Örnólfur Jóhannes Ólafsson á Skútustöðum í Mývatnssveit.