Frumniðurstöður rannsókna á berghlaupi í Öskju 21. júlí 2014

0
33

Að kvöldi 21. júlí 2014 féll stórt berghlaup úr Suðurbotnum í Öskju niður í Öskjuvatn. Hlaupið, sem er eitt stærsta berghlaup á sögulegum tíma á Íslandi, huldi að mestu Suðurbotnahraun og lagðist upp að Kvíslahrauni. Sjálfar eldstöðvar Suðurbotnahrauns eru þó fyrir utan berghlaupið. Frá þessu segir á vef Veðurstofu Íslands.

Þarna féll stór skriða úr fjallinu ofan í Öskjuvatn. Mynd: Jara Fatima Brynjólfsdóttir
Berghlaupið í Öskju. Mynd: Jara Fatima Brynjólfsdóttir

Hlaupið kom af stað flóðbylgju í vatninu sem skolaðist upp á bakkana í kringum vatnið og náði allt að 20-30 m hæð yfir vatnsborðinu. Bylgjan gekk lengst um 400 m inn á flatlendið suðaustan við Víti. Svo heppilega vildi til að hlaupið varð síðla kvölds og enginn var nærri vatninu en annars hefði getað farið illa. Aðeins nokkrum klst. áður voru tugir ferðamanna niðri á vatnsbakkanum við Víti sem hefðu átt erfitt með að komast undan flóðbylgjunni.

Berghlaupið kom fram á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar sem grunnur skjálftaórói og sýna gögnin að hlaupið fór af stað um kl. 23:24. Hreyfikrafturinn í skriðunni og hristingurinn sem hún olli, mynduðu jarðskjálftabylgjur sem breiddust út eftir yfirborði jarðar og ferðuðust yfir mest allt Ísland á rúmlega einni mínútu. Bylgjurnar sáust á stórum hluta jarðskjálftamælakerfis Veðurstofunnar; mjög vel á nálægum stöðvum en einungis lægstu tíðnirnar á fjarlægustu mælum.

Enginn sjónarvottur varð að hlaupinu, en björgunarsveitarmenn hjá Hálendisvakt Landsbjargar sáu hvítan mökk yfir Öskju kl. 23:27. Mökkurinn var gufubólstrar sem stigu upp við það að hlaupið afhjúpaði jarðhita sem áður var grunnt undir yfirborði jarðar á upptakasvæðinu. Einnig kann ryk, sem þyrlaðist upp við berghlaupið, að hafa komið við sögu.

Lesa má meira um þessar frumniðurstöður og skoða skýringarmyndir hér