Glatað tækifæri

0
37

Niðurstöður viðhorfskönnunar meðal íbúa Þingeyjarsveitar á kosningaaldri sem Félagsvísindastofnun vann fyrir Þingeyjarsveit, voru birtar í morgun á vef Þingeyjarsveitar. Eins og fram kom í frétt hér á 641.is í gærkvöld vilja 72% íbúa í Þingeyjarsveit að grunnskólastig Þingeyjarskóla verði á einni starfsstöð en 28% vilja að það verði á tveimur starfsstöðvum, eins og það er í dag. Ef aðeins eru skoðuð viðhorf þeirra íbúa sem búa á skólasvæði Þingeyjarskóla vilja 79% að grunnskólastig Þingeyjarskóla verði á einni starfsstöð en 21% vilja hafa það á tveimur áfram. Má því segja að niðurstöðurnar séu nokkuð afgerandi og sveitarstjórn Þingeyjarsveitar sé þannig komin með leiðarvísi að því sem gera skal. Vilji íbúanna er ljós, en bara að hálfu leiti.

Hermann Aðalsteinsson ritstjóri 641.is
Hermann Aðalsteinsson.

 

Það liggur nefnilega ekki fyrir hver vilji íbúanna er varðandi það hvora starfsstöðina ætti frekar að nýta undir starfsemi Þingeyjarskóla til framtíðar. Að því var ekki spurt í viðhorfskönnuninni. Af hverju ekki var spurt að því vekur undrun. Hvers vegna var ekki tækifærið nýtt, fyrst á annað borð var verið að láta framkvæma þessa könnun ?

Þetta kalla ég að glata góðu tækifæri.

Ég veit ekki svarið við þessari spurningu, en vegir meirihluta sveitarstjórnar þingeyjarsveitar eru stundum órannsakanlegir.

 

 

Það stóð aldrei til að gera það, hefur heyrst. En vildi meirihlutinn ekki fá að vita svarið við þeirri spurningu líka ? Hefði ekki verið betra að vita þetta og fá þannig vitneskju um hvernig landið liggur ? Ég er á þeirri skoðun.

Þær raddir gerast háværarri sem telja að meirihlutinn sé í raun búinn að ákveða á hvorri starfsstöðinni þeir ætla að láta Þingeyjarskóla starfa á og voru bara að leita eftir fylgi meðal íbúanna við þeirri ákvörðun að Þingeyjarskóli starfi á einni starfsstöð, frekar en á hvorri þeirra. Kanski er það svo.

Ef rýnt er í niðurstöður viðhorfskönnunarinnar kom eitt á óvart. Það var aldrei spurt að því í könnuninni á hvaða aldri svarendur væru, en í niðurstöðunum er það sundurgreint. Hvernig vissi Félagsvísindastofnum það ?

Ég hafði samband við Félagsvísindastofnun í dag og þá kom það fram að stofnunin vissi í raun ýmislegt um íbúanna í Þingeyjarsveit. Um var að ræða könnun þar sem allir kjörgengir íbúar í Þingeyjarsveit voru gjaldgengir í og engir aðrir. Félagsvísindastofnun hafði lista með nöfnum, kennitölum, símanúmerum og heimilsföngum allra sem eru á kosningaaldri í Þingeyjarsveit og hringdi út samkvæmt listanum. Eftir kennitölunum var síðan hægt að flokka svarendur eftir aldri. Þetta var ekki handahófskönnun eins og margir þekkja og þess vegna var ekki þörf fyrir marktektarpróf í lok könnunarinnar.

En þá hlaut líka að vera auðvelt að finna út á hvoru skólasvæðinu íbúarnir bjuggu á sem hringt var í. Og má því ætla að það hefði verið óþarfi að spyrja íbúanna að því, þar sem upplýsingar um heimilsföng allra lágu fyrir.

Þannig hefði verið hægt að sleppa fyrstu spurningunni í viðhorfskönnuninni og koma þá í staðinn með td.“milljón dollara spurninguna“, Á hvorri starfsstöðinni viltu sjá Þingeyjarskóla ? Ef að viðmælandinn svaraði á þá leið að hann vildi að starfsemi Þingeyjarskóla yrði á einni starfsstöð til framtíðar.

Eftir þessari spurningu voru allir að bíða, en hún kom aldrei.

Meirihlutinn hefur boðað að ákvörðun um framtíðarskipulag Þingeyjarskóla verði tekin í desember. Nú liggja öll gögn fyrir. Þrjá nýjar skýrslur, auk viðhorfskönnunarinnar. Næsti sveitarstjórnarfundur verður væntanlega haldinn 11. desember.

Líklegt verður að telja að þá muni meirihlutinn kynna ákvörðun sína um framtíðarskipulag Þingeyjarskóla.

Á meðan bíðum við……

Hermann Aðalsteinsson ritstjóri 641.is

Íbúakönnun í Þingeyjarsveit nóvember 2014

Ritstjóri mun skrifa leiðara þegar efni og ástæður gefa tilefni til héðan í frá.