Ekkert að byggja á

0
32
Kiðlingurinn í Pálmholti. Mynd: Linda Ríkharðsdóttir

Eins og íbúar Þingeyjarsveitar vita samþykkti meirihluti sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar á aukafundi sem haldinn var 4. desember sl. tillögu um að grunnskólastig Þingeyjarskóla verði sameinað á eina starfsstöð á Hafralæk frá og með 1. ágúst 2015. Kennsla leggst þar með af við Litlulaugaskóla næsta vor og börnum úr Reykjadal verður frá og með haustinu 2015 kennt í Hafralækjarskóla.

Hermann Aðalsteinsson ritstjóri 641.is
Hermann Aðalsteinsson ritstjóri 641.is

Skólaráð Þingeyjarskóla og Fræðslunefnd Þingeyjarsveitar eiga að vísu eftir gefa álit sitt á þessari tillögu, en endanleg ákvörðun mun liggja fyrir á sveitarstjórnarfundi 18. desember nk. Telja verður líklegt að þá verði þessi ákvörðun staðfest.

Ekkert að byggja á.

Sætir það undrun að engin greinargerð né röksemdafærsla var lögð fram með tillögunni og virðist vera sem þess ákvörðun byggi ekki á neinum rökum, þar sem ekkert fylgir með. Oddviti Þingeyjarsveitar Arnór Benónýsson sagði í viðtali við 641.is 4. desember að „það væri ekki eðlilegt að leggja fræðslunefnd og skólaráði upp forskrift og hafa þannig áhrif á niðurstöðu nefndanna„.

 

Ég er Arnóri algjörlega ósammála. Í svona stóru máli í okkar fámenna samfélagi er greinargerð með einhverri röksemdafærslu bráðnauðsynleg og mér finnst það vera skylda meirihlutans að leggja hana fram með þessari tillögu. Hvernig á Skólaráð og Fræðslunefnd að taka upplýsta ákvörðun í málinu þegar ekkert liggur fyrir ?

Hvernig dettur meirihlutanum svona vinnubrögð í hug ? Hvað með foreldrana, börnin og starfsfólkið ? Hafa þau ekki rétt á því að vita hvernig meirihlutinn kemst að þessari niðurstöðu ? Þetta er sérstaklega athyglisvert þar sem þrjár skýrslur um Þingeyjarskóla voru unnar í haust og kynntar íbúum á íbúafundi í kjölfarið. Einnig var framkvæmd íbúakönnun til að fá fram vilja íbúanna, þó svo að ekki hafi fengist svör við mikilvægustu spurningunni í þeirri könnun, þar sem ekki var spurt að henni. Var ekkert í skýrslunum sem hægt var að nýta sem rök fyrir þessari ákvörðun ?

Hvað svo ?

Margir velta því fyrir sér hver verða næstu skref. Hver er framtíðarsýnin ? Hverjir missa vinnuna og hverjir ekki ? Mér finnst það augljóst að rétta leiðin sé sú að segja öllu starfsfólki Þingeyjarskóla á báðum starfsstöðvum upp störfum og auglýsa svo eftir skólastjóra, aðstoðarskólastjóra, kennurum og öðru því starfsfólki sem þarf. Núverandi starfsfólk getur þá sótt um stöðurnar, ef það kýs svo, en ekkert af núverandi starfsfólki Þingeyjarskóla getur verið öruggt um að fá starf við skólann.

Þetta er það eina rétta í stöðunni og eina leiðin til að tryggja einhverja sátt um mannaráðningar við Þingeyjarskóla á næsta ári. Besta leiðin er að fá einhverja utanaðkomandi aðila til að taka að sér ráðningar við Þingeyjarskóla. Samkvæmt heimildum mínum er líklegt að þessi leið verði farin og er það vel, því sporin hræða nefnilega í þessum efnum.

Arnór segir einnig í viðtalinu að greinargerðin og röksemdafærslan verði lagðar fram eftir að Skólaráð og Fræðslunefnd hafa skilað sínum álitum, en tímasetur það ekki nákvæmlega. Sennilega verða þær kynntar á sveitarstjórnarfundinum 18. desember og gera má ráð fyrir að tillaga meirihlutans verði samþykkt á fundinum.

Gott og vel.

Við fáum þá sennilega að sjá rökin fyrir þessari ákörðun meirihlutans 18. desember. Ég gef mér það amk.

Hermann Aðalsteinsson ritstjóri.