Barnaþurrð

0
39
tvær bleikar, Inga María og

Flestum ætti að vera kunn sú neikvæða byggðarþróun sem einkennt hefur flest dreifbýlissamfélög landsins og jafnvel heilu landshlutana. Í nýlegri skýrslu fyrir Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi beinir hagfræðingurinn dr. Vífill Karlsson sjónum sínum sérstaklega að fækkun barna í sveitum. Sífellt berast fréttir af barnafæð í grunnskólum sem þjónusta dreifðar byggðir og því ætti það ekki að koma á óvart að fækkun hafi átt sér stað. Það sem vekur þó athygli í skýrslu Vífils er að á meðan íbúum í sveitum á Vesturlandi 18 ára og eldri fækkaði um 6,6% frá 1. janúar 1998 til 1. janúar 2014 fækkaði börnum yngri en 17 ára á sama tíma um 42%. Öllum hlýtur að koma saman um það að munurinn er sláandi og sýnir svo augljóslega að vandi sveitanna er ekki síður það hvaða aldurshópar búa ekki þar en heildarfækkunin sem slík. Ýmsar hugmyndir hafa verið settar fram í gegnum árin á því hvers vegna svo lítil endurnýjun á sér stað í sveitum landsins og það gerir Vífill einnig í umræddri skýrslu auk þess sem hann fer yfir nokkrar staðreyndir í þeim málum út frá þeim rannsóknum sem þegar hafa verið gerðar, sem þó eru í raun alltof fáar.

Auk þess að skoða sveitir í sveitarfélögum á Vesturlandi sérstaklega tekur Vífill einnig saman þróunina í sveitum landsins út frá kjördæmaskipan eins og hún var fram til ársins 2000. Myndritið úr skýrslu hans (Mynd 2) sýnir að fækkunin á Vesturlandi er ekkert einsdæmi, í öllum landshlutunum hefur börnum á aldrinum 0-16 ára fækkað í sveitum. Þannig hefur börnum sem búa í sveit á Norðurlandi eystra t.d. fækkað á þessu tímabili um tæp 37% eða um rúmlega þriðjung.

Barnaþurrð mynd 2

Samkvæmt skýrslu Vífils bjuggu rétt tæplega 1.000 börn í sveit á Norðurlandi eystra árið 1998. Ekki kemur fram í gögnunum hvernig farið var að því að skilgreina hvaða hús töldust vera í sveit og hver ekki en ljóst að fyrir skýrsluna hefur þurft að sérpanta gögn frá Hagstofu Íslands. Á heimasíðu Hagstofunar má hins vegar nálgast gögn út frá sveitafélagaskipan og þar sem Þingeyjarsýslur eru eitt stórt dreifbýlissvæði fór ég að velta því fyrir mér hvort þessi þróun sem þarna kemur fram í skýrslu Vífils gildi um öll sveitarfélögin í sýslunum. Úrvinnsla mín, á gögnum af heimasíðu Hagstofunnar, unnin á sama hátt og í skýrslu Vífils leiðir í ljós (sjá myndrit) að börnum hefur fækkað í öllum sveitarfélögunum á umræddu tímabili. Tvö sveitarfélög skera sig þó úr hvað þetta varðar en það er Grýtubakkahreppur þar sem nánast enginn fækkun hefur átt sér stað og Langanesbyggð þar sem fækkunin er innan við 10%. Tjörneshreppur skipar sér líka í sérflokk en eingöngu eitt barn var skráð í Tjörneshrepp 1. janúar 2014 og er fækkunin frá 1998 því 95%. Í hinum sveitarfélögunum í sýslunum er fækkunin á bilinu 27-56%. Sum þessara sveitarfélaga eru mjög víðfeðm og samanstanda jafnvel af mörgum samfélögum. Það gæti því verið athyglisvert, eins og t.d. fyrir Norðurþing, að láta vinna fyrir sig skýrslu þar sem einstök svæði sveitarfélagsins eru kortlögð sérstaklega. Með því mætti t.d. komast að því hvort börnum hafi virkilega fækkað um næstum helming á öllum skólasvæðum í Norðurþingi.

Barnaþurrð mynd

Eins og ég gat í upphafi kemur fram í skýrslu Vífils að íbúum á Vesturlandi eldri en 18 ára fækkaði á tímabilinu mun minna en íbúum 0-16 ára eða eingöngu um 6,6% á móti 42%. Sambærileg fækkun fullorðinna íbúa í sveitum á Norðurlandi eystra er 8% samkvæmt skýrslu Vífils og þar sem athugun mín á þróun í fjölda barna á aldrinum 0-16 ára leiddi í ljós að mestu sömu þróun og í skýrslu Vífils vaknaði hjá mér forvitni að vita hver íbúaþróunin hefur verið í þessum sveitarfélögum meðal íbúa 18 ára og eldri.

Barnaþurrð mynd 3

 

Barnaþurrð mynd 4

Mynd 3 úr skýrslu Vífils og myndritið fyrir sveitarfélög í Þingeyjarssýslum svipar mjög til hvors annars. Fullorðnum íbúum fækkar víðast hvar en mun minna en íbúum á aldrinum 0-16 ára. Fækkunin er á bilinu 5-19% minnst í Grýtubakkahreppi en þar hefur börnum einmitt líka eingöngu fækkað um 1%. Hvers vegna fullorðnum fækkar mest (19%) í því sveitarfélagi þar sem börnum fækkar næst minnst (9%) er mér ráðgáta en staðkunnugir gætu átt einhverjar skýringar á því. Svalbarðsstrandarhreppur skipar sérstöðu hér líkt og Suðurland í myndriti Vífils. Hér liggur beinast við að draga þá ályktun að staðir í nágrenni stórra og sterkra þéttbýlisstaða njóti góðs af því og nái að „græða“ á nálægðinni og vaxa. Rétt er samt að benda á þá staðreynd að þó svo að íbúum eldri en 18 ára í sveitum á Suðurlandi hafi fjölgað lítillega (3,5%) þá fækkaði samt börnunum umtalsvert (32%). Sama á við um Svalbarðsstrandarhrepp: Fullorðnum fjölgaði umtalsvert (34%) en börnunum fækkaði ótrúlega mikið (27%) þrátt fyrir þessa miklu fjölgun fullorðinna íbúa. Þessi staðreynd hlýtur að vera sérstakt umhugsunarefni fyrir þá sem gera ráð fyrir umtalsverðri fjölgun barna í Stórutjarnarskóla í kjölfar þess að Vaðlaheiðagöng opni. Hvað sem því líður og öðrum staðreyndum í skólamálum þá er ljóst að full ástæða hlýtur að vera til þess að gera sérstakt átak í því að laða ungar fjölskyldur til búsetu í Þingeyjarsýslum. Börnin eru jú framtíðin.

Aðalsteinn Már Þorsteinsson (Greinin birtis í Skarp sl. fimmtudag)