Átta dagar liðnir – Tíu dagar til stefnu

0
40
stolin mynd af Hermanni Aðalsteinssyni

Nú eru átta dagar liðnir síðan umsóknarfrestur um skólastjórastöðu Þingeyjarskóla rann út. Samkvæmt Upplýsingalögum (7. grein.) að þá hafa íbúar í Þingeyjarsveit rétt til þess að vita hverjir sóttu um stöðuna. Í greininni segir „þegar umsóknarfrestur er liðinn“ svo að tíminn sem liðinn er síðan 10. febrúar er orðin nokkuð langur. Ráða á nýjan skólastjóra við Þingeyjarskóla frá og með 1. mars og því eru aðeins tíu dagar til stefnu. Samkvæmt óstaðfestum heimildum 641.is bárust sex umsóknir um stöðuna.

Hermann Aðalsteinsson ritstjóri 641.is
Hermann Aðalsteinsson ritstjóri 641.is

641.is sendi sveitarstjóra fyrirspurn, daginn sem umsóknarfresturinn rann út, um hvort ekki stæði til að birta nöfn umsækjenda. Í svari sveitarstjóra sem barst samdægurs, kom fram að listi yfir umsækjendur verði birtur á heimasíðu sveitarfélagsins þegar allar umsóknir hafa örugglega borist.

641.is sendi aftur fyrirspurn til sveitarstjóra í gær um það hvenær listi yfir umsækjendur um skólastjórastöðu við Þingeyjarskóla verði birtur þar sem ekki var búið að birta listann í gær. Svar barst nú í kvöld og var á þá leið að enn væri verið að vinna í umsóknarferlinu og það ætti að klára það áður en nöfn umsækjenda verða birt, sem verður sennilega ekki fyrr en í lok næstu viku.

 

Þetta eru undarleg vinnubrögð. Af hverju er ekki hægt að birta nöfnin fyrr en í lok næstu viku ? Er það kanski vegna þess að ganga á frá ráðningu á nýjum skólastjóra áður en listi yfir umsækjendur er birtur ? Getur það verið ? Það er sveitarstjórnarfundur fimmtudaginn 26. febrúar. Kanski á að tilkynna um ráðninguna á fundinum og geta þess svona í leiðinni hverjir aðrir sóttu um ? Varla er enn verið að bíða eftir umsóknum um stöðuna.

Þetta eru vinsamleg tilmæli til sveitarstjórnar og sveitarstjóra Þingeyjarsveitar um að birta lista yfir umsækjendur sem fyrst. Frekari dráttur á því eykur bara tortryggni í ykkar garð og við umsóknarferlið allt.

Hermann Aðalsteinsson ritstjóri.