Hreppamunur – Niðurstöður mínar á samantekt á búsetuþróun síðustu 17 ára í sveitarfélögum

SUBTITLE PRUFA BLA BLA BLA BLA BLA

0
88
indjáninn Katla María undibýr mikið högg á tunnuna.

Niðurstöður mínar á samantekt á búsetuþróun síðustu 17 ára í sveitarfélögum Þingeyjarsýslna meðal íbúa á aldrinum 0 – 16 ára annars vegar og 18 ára og eldri hins vegar, sem birtist hér í blaðinu í síðustu viku, voru slíkar að þær kalla beinlínis á frekari skoðun. Sem íbúi í Þingeyjarsveit liggur mér, eins og gefur að skilja, sérstök forvitni á því að skoða mitt eigið sveitarfélag betur. Þó ekki síst í ljósi þess að meirihluti sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar tilkynnti stuttu fyrir áramót þá ákvörðun sína að loka Litlulaugskóla í Reykjadal.

Aðalsteinn Már Þorsteinsson
Aðalsteinn Már Þorsteinsson

Öllum hlýtur að vera ljóst að tæplega 1.000 manna sveitarfélag á erfitt með að standa undir rekstri á mörgum grunnskólum en rúmur áratugur er síðan Barnaskóla Bárðdæla í Kiðagili var lokað og Hafralækjarskóli og Litlulaugskóla hafa verið reknir sem ein sameiginleg stofnun, Þingeyjarskóli, síðan haustið 2012. Lokun skóla er oftast nær mjög umdeild ákvörðun og mörg dæmi er um það bæði hérlendis og erlendis að miklar deilur hafi sprottið um slík mál.

Enn er sumum í fersku minni lokun grunnskólans á Kópaskeri og margir muna eftir því þegar Skútustaðaskóla var lokað eða þegar Kinnungar deildu um hvort keyra ætti í Hafralækjarskóla eða Stórutjarnarskóla, svo dæmi séu tekin úr Þingeyjarsýslum.

Rétt er að geta þess fyrst af öllu að það val sveitarstjórnarmeirihlutans í Þingeyjarsveit að einbeita sér eingöngu að breytingum á skólahaldi í hluta sveitarfélagsins verður að teljast afar einkennilegt, sérstaklega í ljósi þess að fyrir því eru sáralítil rök. Ýmsir hafa réttlætt það með tilvísun í miklar vegalengdir, Fljótsheiðina sem mikinn farartálma eða að það verði mikil fjölgun í Stórutjarnarskóla í kjölfar opnunar Vaðlaheiðargangna. Um þetta síðasta hef ég alla tíð haft efasemdir og tölurnar um 27% fækkun barna í Svalbarðsstrandarhreppi frá 1. janúar 1998 þrátt fyrir umtalsverða fjölgun fullorðinna íbúa á sama tíma, 34%, sem komu fram í grein minni í síðustu viku, benda líka til þess að þétting byggðar í dreifbýli næst stóru þéttbýli leiði ekki til fjölgunar á börnum. Hvort Þingeyjarsveit tekst að snúa á þessa þróun og hreinlega fjölga stórlega til lengri tíma börnum á skólasvæði Stórutjarnarskóla verður forvitnilegt að sjá. Í skýrslu hagfræðingins dr. Vífils Karlssonar um Börn í sveitum á Vesturlandi sem ég vísaði til í fyrri grein minni kemur fram að fækkun barna í dreifbýli er vel þekkt breyta um allan heim og það því ekki lítið afrek ef Þingeyjarsveit tekst að snúa á þróunina. Í kjölfar þess að farið var að byggja mikið af húsum í Svalbarðsstrandarhreppi fjölgaði börnum vissulega tímabundið og má vel búast við því að það gerist einnig í Stórutjarnarskóla. Göngin munu því hugsanlega seinka því að nemendafjöldi þar fari niður fyrir 30 börn um fimm ár.

Þó svo að skólasvæðin í Þingeyjarsveit skiptist ekki hreint eftir gömlu hreppamörkunum gefa tölur um fjölda barna í þeim nokkra vísbendingu um þá þróun sem hefur verið í hverjum skóla fyrir sig. Sú þróun sem kemur þar fram er afar forvitnileg, svo ekki sé meira sagt, í ljósi áðurnefndrar stefnu Þingeyjarsveitar að bæði hreyfa ekki við Stórutjarnarskóla og eins að loka Litlulaugaskóla. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Hagstofunnar hefur nemendum Stórutjarnarskóla fækkað um 36% á þessari öld. Nemendum í Litlulaugaskóla hefur fjölgað á sama tíma um 8% en mesta breytingin er þó í Hafralækjarskóla þar sem nemendum hefur fækkað um 60% enda kemur þar fleira til en eingöngu fækkun barna í sveitinni.

Hreppamunur
Smella á myndina til að skoða stærri upplausn

 

Meðfylgjandi myndrit byggir á gögnum frá Hagstofu Íslands og sýnir hlutfallslegan fjölda barna, 0-16 ára, í gömlu hreppunum fimm sem í dag mynda Þingeyjarsveit frá 1998 til 2014 þar sem fjöldi barna 1. janúar 1998 er sett sem grunnbreyta, 100%. Í tveimur hreppum hefur börnunum fækkað um meira en helming eða um 62% í Hálshreppi og 60% í Ljósavatnshreppi. Öll börn úr Hálshreppi ganga í Stórutjarnarskóla og hluti barna úr Ljósavatnshreppi einnig. Mun minni fækkun hefur orðið á börnum í Bárðdælahreppi, eða „eingöngu“ 26%, en þau sækja einnig öll Stjórutjarnarskóla. Sá hluti barna í Ljósavatnshreppi sem ekki sækir Stórutjarnarskóla fer í Hafralækjarskóla og gæti ég best trúað því, án þess að hafa kannað það sérstaklega, að heldur hafi börnum fækkað meira á því svæði í Ljósavatnshreppi en á svæði Stórutjarnarskóla og skýri það þá einnig að hluta til hvers vegna grunnskólabörnum hefur fækkað um 60% í Hafralækjarskóla en „eingöngu“ 36% í Stórutjarnarskóla. Fækkun barna í Aðaldælahreppi er nefnilega ekki nándar nærri eins mikil eins og í Hálshreppi og Ljósavatnshreppi. Hún er nánast á pari við fækkun í Þingeyjarsveit allri eða um 34%.

Eins og svo glögglega sést á myndritinu sker Reykdælahreppur sig úr. Þar fjölgaði börnum mikið í góðærinu fyrir hrun enda voru þá byggðar íbúðir á Laugum. Reyndar voru líka á sama tíma byggðar íbúðir við Stórutjarnarskóla en áhrifin af því virðast hafa verið óveruleg. Þrátt fyrir mikla fækkun barna í kjölfar hrunsins í Reykdælahreppi hefur börnum fjölgað þar á því tímabili sem skoðað er um 16%. Til samanburðar má geta þess að fjölgun í þessum aldurshóp á Akureyri var helmingi minni en í Reykjadal eða 8%, fækkun varð í Reykjavík um 1% og á landinu öllu varð 3% fjölgun. Af þessu hlýtur að vera ljóst að þessi vöxtur í Reykjadal er einstakur, jafnvel borið saman við stóra og fjölmenna þéttbýliskjarna. Ef gerður væri samanburður á skólaakstri í Reykjadal ársins 1998 annars vegar og 2014 hins vegar kæmi í ljós sú staðreynd að börnum hefur fækkað mikið á sveitabæjunum. Þróunin í sveit í Reykjadal er því sennilega svipuð því sem er að gerast í sveitum um allt land. Laugar, þó lítill byggðakjarni sé, virðist hins vegar hafa náð að draga til sín ungt barnafólk og tölur yfir íbúaþróun á Laugum sýna líka að þar fjölgar fólki. Tölur frá Hagstofu Íslands sýna 18% fjölgun á einum áratug, frá 2004 til 2014, en íbúum í Þingeyjarsveit fækkaði á sama tíma um 7%.

Rekstur fámenns og víðfeðms sveitarfélags er ekki auðveldur og hlutverk sveitarstjórnarfulltrúa er ekki öfundsvert, það þarf að taka erfiðar og óvinsælar ákvarðanir. Engu síður er það skylda að teknar séu bestu og skynsamlegustu ákvarðanirnar á hverjum tíma. Ég hef margar ástæður til þess að ætla að meirihluti sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar hafi ekki gert það þegar hún ákvað að loka Litlulaugaskóla. Vissulega hafa bæði verið unnar margar skýrslur um skólamál og nú síðast líka gerð könnun meðal íbúa og margt bendir til þess að bæði sé áhugi fyrir því meðal íbúa og ávinningur af því faglega að reka ekki skóla á þremur stöðum í sveitarfélaginu með um 40 börn á hverjum stað. Það er samt ekki svo að engu máli skipti hvaða skóla er lokað. Leiða þarf hugann að þeim samfélagslegum áhrifum sem lokanir hafa í för með sér. Fyrirhuguð lokun Litlulaugaskóla í vor er þegar farin að hafa neikvæð áhrif og börnum mun fækka á Laugum. Meðal annars af þessum sökum hef ég gengið langt í því að reyna ná eyrum sveitarstjórnarfulltrúanna og fá þá til þess að endurskoða ákvörðun sína.

Ég tel að með því að leggja af grunnskólahald í þeim hluta sveitarfélagsins þar sem er vöxtur og íbúum hefur verið að fjölga sé verið að gera mikil mistök sem beinlínis skaða sveitarfélagið. Meirihluti sveitarstjórnar hefur hingað til kosið að hunsa allar ábendingar mínar og engu svarað því sem ég hef lagt fram. Mikilvægt er að fleiri láti í sér heyra á opinberum vettvangi ef ná á að afstýra þeim mistökum sem stefnir í. Fólki gefst m.a. kostur á því að taka þátt í undirsskriftarsöfnun á netinu gegn lokun Litlulaugaskóla á vefsvæðinu openpetition.de (leitarorð: grunnskóla). Þar má rita undir (hægt er að óska þess að nafnið birtist ekki á vefnum) og eins skrifa rök með eða gegn þessari undirskriftarsöfnun. Allir eru líka velkomnir til þess að taka þátt í mótmælastöðu fyrir utan skrifstofu sveitarfélagsins í Kjarna annan hvern fimmtudag frá kl. 13:00 á meðan á sveitarstjórnarfundi stendur. Næsti mótmælafundur (númer 4) er fyrirhugaður 26. febrúar og má líka finna viðburðinn á Facebook til að boða komu sína, bjóða öðrum eða koma skoðunum sínum á framfæri.

Aðalsteinn Már Þorsteinsson. (Greinin birtist í skarp sl. fimmtudag)